Íslenski boltinn

Sævar Þór: Eru ekki ævintýri í öllum leikjum

Elvar Geir Magnússon skrifar
Sævar Þór Gíslason.
Sævar Þór Gíslason.
„Það er ekki hægt að gefa tvö mörk í hverjum leik og komast upp með það. Það eru ekki ævintýri í hverjum einasta leik," sagði Sævar Þór Gíslason, leikmaður Selfyssinga, eftir að liðið tapaði fyrir Val 2-3 í kvöld.

Eftir að hafa lent tveimur mörkum undir náðu Selfyssingar að minnka muninn í 2-1. Skömmu síðar jókst forysta Vals á ný eftir mistök hjá markverði Selfyssinga, Jóhanni Ólafi Sigurðssyni.

„Það er of mikið að þurfa alltaf að vera að reyna að koma til baka eftir að hafa lent tveimur mörkum undir. Við náðum að minnka muninn og svo komu stór mistök. Ég ætla ekki að kenna Jóa um tapið, hann er búinn að vera okkar langbesti maður í allt sumar og halda okkur á floti í mörgum leikjum," sagði Sævar.

Selfyssingar eru í 11. sæti deildarinnar, fjórum stigum frá öruggu sæti og eiga þrjú efstu liðin í næstu leikjum. „Við þurfum að skipuleggja okkur betur fyrir þessa leiki. Við getum svo sannarlega haft áhrif á toppbaráttuna og ætlum okkur að gera það. Þessi lið fá ekkert gefins stig gegn okkur," sagði Sævar.

„Við njótum þess bara að spila og ná í sem flest stig. Það er alltaf verið að tala um að Haukar og Grindavík séu flott fótboltalið en hafi vantað herslumuninn. Við erum ekkert með lakara lið en þeir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×