Innlent

Sækir um afslátt á gjöldum

Íbúðalánasjóður ber mikinn rekstrarkostnað af um 400 íbúðum sem sjóðurinn á nú. fréttablaðið/pjetur
Íbúðalánasjóður ber mikinn rekstrarkostnað af um 400 íbúðum sem sjóðurinn á nú. fréttablaðið/pjetur
Íbúðalánasjóður hefur sent sveitarfélögum erindi þar sem sótt er um afslátt á fasteignagjöldum vegna staðgreiðslu. Þá er óskað eftir að sorphirðugjöld falli niður, í þeim eignum sem standa auðar.

Guðmundur Bjarnason, forstjóri Íbúðalánasjóðs, segir að rekstrarkostnaður sjóðsins af íbúðum sé orðinn talsverður. Sjóðurinn eigi orðið hátt í 400 íbúðir, en hafi á árum áður átt 50 til 100. Því hafi verið leitað til sveitarfélaga með þetta erindi, hagur beggja gæti veirð að mætast á miðri leið.

Hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga fengust þau svör að dæmi væru um að sveitarfélög hefðu veitt slíkan afslátt. Það væri ákveðið hagræði fyrir sveitarfélög að fá fasteignagjöldin greidd í einu lagi, frekar en í allt upp í tíu gjalddögum. Sveitarstjórnir hefðu í raun sjálfdæmi hvernig þær brygðust við þessum erindum, en mikill meirihluti sveitarfélaga hefði engar reglur um afslátt.

Þá þekkist það einnig að sveitarfélög felli niður sorphirðugjald ef íbúðir standa auðar. Þá er sorpílátum skilað inn. Það getur hins vegar verið erfitt að úrskurða um slíkt í fjölbýlishúsum og þá eru fyrrum eigendur oft og tíðum áfram í húsnæði eftir að sjóðurinn hefur tekið það yfir. - kóp



Fleiri fréttir

Sjá meira


×