Innlent

Ekki bankakerfisins að refsa

Gylfi Magnússon
Gylfi Magnússon

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir mikilvægt að reglur réttarríkisins séu hafðar í heiðri við endurreisn fyrirtækja. Það sé dómskerfisins að refsa mönnum hafi þeir brotið lög en ekki bankakerfisins.

Hann sagði bankana hafa unnið úr málum manna sem ekki hefði sannast að hefðu brotið lög en það breytti því ekki að þeir hefðu kannski gengið freklega fram af þjóðinni. Súrt væri ef menn sem svo er ástatt um gætu endurreist viðskiptaveldi sín.

Gylfi sagði líka eðlilegt að almenningur neiti að eiga í viðskiptum við menn sem gengið hefðu fram af þjóðinni. „Viðskiptaveldi er lítils virði ef enginn vill við það skipta,“ sagði hann.

Magnús Orri Schram, Samfylkingunni, spurði ráðherrann út í málið á þingfundi í gær. Sagði Magnús Orri erfitt að horfa upp á fyrrverandi aðalleikendur útrásarinnar verða ráðandi í nýju íslensku viðskiptalífi. Skoðun hans væri sú að setja ætti lög um að hægt verði að ganga að öllum eignum lögbrjóta, þar með talið eignarhlutum þeirra í fyrirtækjum.

Magnús Orri situr í viðskiptanefnd þingsins sem hefur fjallað um verklagsreglur bankanna. Hafa nefndarmenn lýst þeim ógagnsæjum og ófullnægjandi.

- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×