Enski boltinn

Ballack haltraði útaf mánuði fyrir HM - bíður eftir myndatöku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Ballack liggur sárþjáður í vellinum.
Michael Ballack liggur sárþjáður í vellinum. Mynd/AP
Michael Ballack, fyrirliði þýska landsliðsins, fór meiddur af velli á 44. mínútu í bikarúrslitaleiknum á móti Portsmouth í dag eftir harða tæklingu frá Kevin-Prince Boateng. Það er aðeins mánuður í HM og það hefur örugglega farið um margan Þjóðverjann að sjá fyrirliðann haltra útaf.

„Ég er ekki góður í ökklanum akkúrat núna en ég veit meira eftir myndatökuna á morgun. Ég fór útaf af því að ég gat ekki meira en ég held samt að þetta sé ekki það slæmt," sagði Michael Ballack. Fyrsti leikur þýska liðsins er á móti Ástralíu 13. júní.

„Þetta er leiðinlegi hluti fótboltans og enginn vill sjá svona brot. Hann slapp með gult spjald og var heppinn," sagði Michael Ballack um Kevin-Prince Boateng sem átti seinna eftir að klikka á vítaspyrnu í stöðunni 0-0.

„Ég held að þetta sé ekki það slæm meiðsli. Við vonum að hann verði klár fyrir heimsmeistarakeppnina," sagði Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×