Innlent

Félagsmálaráðherra: Lögreglan taki á stórfelldum bótasvikum

MYND/Anton Brink

Félagsmálaráðherra segir að það sé lögreglunnar en ekki Tryggingastofnunar að taka á stórfelldum bótasvikum. Hins vegar þurfi að einfalda almannatryggingakerfið og skýra betur réttindi fólks til að koma í veg fyrir misskilning.

Þeir sem svíkja út bætur frá Tryggingastofnun ríkisins eru ekki krafðir um endurgreiðslur jafnvel þótt upp um þá komist. Fréttablaðið greindi frá því í vikunni að dæmi eru um að fólk hafi svikið út allt að 170 þúsund krónur á mánuði í bætur.

Félagsmálaráðherra segir mikilvægt að hafa í huga að í sumum tilvikum fái fólk of miklar bætur vegna misskilings. Annað gildi hins vegar um fólk sem misnotar kerfið.

Ef um er að ræða svik upp á mörg hundrað þúsund til margra ára þá sé það auðgunarbrot sem varðar við hegningarlög og það er lögreglunnar að taka á því.

Árni segir að til standi að einfalda tryggingakerfið með því að fækka bótaflokkum og skýra betur réttindi bótaþega. „Í öllum tryggingakerfum í öllum velferðarkerfum eru einhverjir sem svíkja og svindla og það er því miður óhjákvæmilegt. Við eigum að reyna að hanna kerfi þannig að það verði erfitt að gera það, við eigum að hafa réttindin skýr en við getum aldrei hannað kerfi út frá þessum fáu sem svindla."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×