Innlent

Mikil leynd hvílir yfir fundinum í Haag

Fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Framsóknarflokksins eiga fund með bankamálaráðherra Bretlands og fjármálaráðherra Hollands í Haag í fyrramálið vegna Icesave deilunnar. Yfirlýsingar er að vænta að loknum fundi þeirra.

Mikil leynd hvílir yfir fundinum sem ákveðinn var á fundi leiðtoga stjórnarandstöðuflokkanna og stjórnarflokkanna í Stjórnarráðinu í gær. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, Bjarni Beneditksson formaður Sjálfstæðisflokksins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Frarmsóknarflokksins héldu utan til Hollandsí dag.

Það mun vera krafa frá Bretum og Hollendingum að leynd hvíli yfir fundinum. Samkvæmt heimildum fréttastofunnar munu þeir þremenningar hitta Paul Myners bankamálaráðherra Bretlands og Wouter Bos fjármálaráðherra Hollands.

Fundinum var komið á fyrir milligöngu annað hvort útlends stjórnmálamanns eða erlendrar ríkisstjórnar eftir því sem fréttastofan kemst næst. Þá herma heimildir okkar að vænta megi yfirlýsingar að fundi loknum í Haag í Hollandi á morgun. Fjármálaráðherra og formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eru ekki væntanlegir til Íslands fyrr en annað kvöld og verða því ekki á þingfundi þegar þing kemur saman á morgun.

Athygli vekur að hvorki fulltrúi Samfylkingar né Hreyfingarinnar eru með í för, en heimildir fréttastofu herma að innan ríkisstjórnarinnar hafi verið talið nóg að fjármálaráðherra færi á fundinn fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.