Innlent

Þjófnaðurinn í sendiráðinu í Vín enn til rannsóknar

Umrædd kona gegndi starfi bókara í sendiráði Íslands í Vín. Hún er grunuð um að hafa dregið sér rúmlega 50 milljónir króna.
Umrædd kona gegndi starfi bókara í sendiráði Íslands í Vín. Hún er grunuð um að hafa dregið sér rúmlega 50 milljónir króna. Mynd/GVA
Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra hefur enn til rannsóknar mál konu sem gegndi starfi bókara í sendiráði Íslands í Vín og grunuð er um að hafa dregið sér rúmlega 50 milljónir króna. Helgi Magnús Gunnarsson yfirmaður deildarinnar á von á því að niðurstaða liggi fyrir eftir nokkrar vikur og þá verði tekin ákvörðun um hvort að konan verði ákærð.

Málið kom upp í októberbyrjun á síðasta ári. Konunni sem er um þrítugt var vikið frá störfum eftir að hún játaði brot sitt. Þá var hún barnshafandi.

Ekki er ljóst yfir hversu langt tímabil fjárdrátturinn á að hafa staðið en konan gegndi starfi bókara hjá sendiráðinu á annað ár. Hún mun hafa haft aðgang að reikningum sendiráðsins en einnig utanríkisráðuneytisins.

Í frétt á Stöð 2 um málið í október kom fram að konan glímir við spilafíkn og að svo virtist sem að peningar ráðuneytisins hefðu farið í veðmálsleiki á netinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×