Fótbolti

Gunnleifur: Ætlum að taka þrjú stig gegn Portúgal

Eiríkur Stefán Ásgeirsson á Parken skrifar

„Það sem stendur upp úr hjá mér er frábær frammistaða liðsins í 90 mínútur,“ sagði landsliðsmarkvörðurinn Gunnleifur Gunnleifsson eftir 1-0 tap fyrir Dönum á Parken í kvöld.

Sigurmarkið var skorað í uppbótartíma en fram að því hafði íslenska liðinu tekist að halda aftur af heimamönnum.

„Við vorum mjög skipulagðir og það var mikill vilji í liðinu til að verja þetta stig. Það er því sorglegt að hafa fengið þetta mark á okkur.“

„Mér finnst ég alltaf geta gert betur í öllum þeim mörkum sem ég fæ á mig. Ég held að það hjálpi mér líka að gera mig að betri markverði.“

„En ég vil ekki taka neitt af okkur. Við vorum mjög vel undirbúnir fyrir þennan leik. Við lentum í smá vandræðum með Rommedahl í fyrri hálfleik en náðum að loka fyrir það í þeim síðari. En við erum þrátt fyrir allt bara með núll stig en það er þó hægt að segja að liðið lofi góðu. Það kemur því ekkert annað til greina en að taka þrjú stig gegn Portúgal.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×