Innlent

Össur fagnar viðbrögðum Hillary Clinton

Clinton kveður
Íslensk stjórnvöld hafa greinilega haft erindi sem erfiði við að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við Bandaríkastjórn.
nordicphotos/AFP
Clinton kveður Íslensk stjórnvöld hafa greinilega haft erindi sem erfiði við að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við Bandaríkastjórn. nordicphotos/AFP

„Við erum mjög ánægð með viðbrögð utanríkisráðherra Bandaríkjanna og teljum að hún hafi lög að mæla,“ segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra um orð Hillary Clinton á samráðsfundi fimm ríkja um málefni norðurskautsins, sem haldinn var í Kanada, „en við höfum reyndar komið þessum sjónarmiðum skýrt á framfæri við bandarísk stjórnvöld í gegnum utanríkisþjónustuna. Og ég man ekki betur en ég hafi verið eini utanríkisráðherra þessara þriggja ríkja sem utan standa, sem kvaddi sér hljóðs um málið á alþjóðafundi fyrir um tveimur mánuðum.“

Clinton gagnrýndi Kanadastjórn harðlega fyrir að bjóða hvorki Íslendingum, Finnum og Svíum né fulltrúum frumbyggjaþjóða á norðurslóðum til fundar um norðurskautsmálefni, sem haldinn var í Ottawa í Kanada í gær.

„Mikilvægar alþjóðlegar viðræður um málefni norðurskautsins eiga að fara fram með þátttöku allra sem eiga lögmætra hagsmuna að gæta á þessu svæði,“ sagði hún.

Lawrence Cannon, utanríkisráðherra Kanada, hafði boðið utanríkisráðherrum Bandaríkjanna, Rússlands, Noregs og Danmerkur til samráðsfundar um málefni norðurskautsins á mánudag í tengslum við utanríkisráðherrafund G8-ríkjanna, sem haldinn var í Kanada.

Öll þessi fimm ríki eiga sæti í Norðurskautsráðinu, en til fundarins var ekki boðið utanríkisráðherrum Íslands, Svíþjóðar og Finnlands, þrátt fyrir aðild þeirra að ráðinu. Ekki var heldur boðið þangað fulltrúum frumbyggjaþjóða sem einnig eiga aðild að Norðurskautsráðinu.

„Ég veit ekki af hverju þeir héldu þennan fund,“ segir Össur, „en þetta er í annað skiptið sem svona fundur, sem er utan vébanda Norðurskautsráðsins, er haldinn. Síðast var það í Grænlandi fyrir tveimur árum. Við teljum þetta mjög rangt að kljúfa okkur út úr umfjöllun um þessi málefni, því við erum þeirrar skoðunar að allir sem eiga hagsmuni undir eigi að hafa aðkomu þar að, líka frumbyggjaþjóðirnar sem búa í þessum ríkjum.“

Í viðtali við þýska tímaritið Spiegel réttlætir Catherine Loubier, talskona kanadíska utanríkisráðuneytisins, fimm ríkja fundinn með því að hann sé fundur strandríkja við Norður-Íshafið. Þess vegna séu hvorki Ísland, Finnland og Svíþjóð með, og fulltrúar frumbyggja væntanlega ekki vegna þess að þeir séu ekki fulltrúar stjórnvalda neins þjóðríkis.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins virðist sem Rússar vilji draga úr möguleikum þess að Evrópusambandið hafi áhrif á þær ákvarðanir sem teknar eru á vettvangi Norðurskautsráðsins.

Ekki er að sjá annað en að Kanadamenn séu þar á svipuðu róli og Rússar, enda eru Kanadamenn verulega ósáttir við Evrópusambandið vegna afstöðu þess bæði til hvalveiða og sölu selaafurða.

Viðbrögð Clintons hafa líklega orðið til þess að vægi fundarins varð minna en Kandamenn og Rússar höfðu vonast til.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagðist þó ánægður með fundinn. Hann sagðist ekki líta svo á að fimm ríkja fundirnir drægju neitt úr gildi Norðurskautsráðsins, enda þurfi hvort eð er að leysa allar deilur ríkjanna með friðsamlegum hætti.

Cannon sagði sömuleiðis að fimm ríkja fundinum væri hvorki ætlað að koma í staðinn fyrir Norðurskautsráðið né grafa undan því. „Satt að segja tel ég að viðræðurnar í dag komi sér vel fyrir Norðurskautsráðið og aðildarríki þess,“ er haft eftir honum í fréttaskeytum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×