Íslenski boltinn

Gummi Ben: Þetta var stórfurðulegur knattspyrnuleikur

Stefán Árni Pálsson skrifar
„Ég er hundfúll eftir þetta tap," sagði Guðmundur Benediktsson, þjálfari Selfoss, eftir að hans menn höfðu tapað, 3-1, fyrir Frömurum í kvöld, en leikurinn fór fram á Laugardalsvellinum.

„Þetta var stórfurðulegur knattspyrnuleikur þar sem bæði lið vörðust ekkert sérstaklega vel. Það hefðu alveg getað komið tíu mörk hér í kvöld. Við vorum bara ekki nægilega sterkir varnarlega og þegar Framarar sækja svona hratt á mann þá verður vörnin að vera í lagi," sagði Guðmundur.

„Maður getur ekki ætlast til þess að vinna fótboltaleik þegar þú færð á þig þrjú mörk svo einfalt er það. Við erum frekar vanir því að fá á okkur mörk en þau verða að vera færri en þetta," sagði Guðmundur.

„Við förum ekkert að hengja haus eftir þetta tap, það kemur dagur eftir þennan dag. Við eigum Valsmenn eftir viku og munum koma gríðarlega vel undirbúnir fyrir þann leik," sagði Guðmundur súr á svip eftir leikinn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×