Innlent

Villa í reikningi VG

Framkvæmdastjóri VG segir að einstaka aðildarfélög hafi skellt saman framlögum frá sveitarfélögum og öðrum framlögum. Unnið er að leiðréttingu.Fréttablaðið/Arnþór Birkisson
Framkvæmdastjóri VG segir að einstaka aðildarfélög hafi skellt saman framlögum frá sveitarfélögum og öðrum framlögum. Unnið er að leiðréttingu.Fréttablaðið/Arnþór Birkisson

Vinstrihreyfingin – grænt framboð oftaldi framlög frá einstaklingum en lét ekki getið um framlög til flokksins frá sveitar­félögum þegar ársreikningi 2008 var skilað til Ríkisendurskoðunar.

Fyrr í vikunni birti Ríkisendur­skoðun útdrætti úr ársreikningum þeirra stjórnmálaflokka sem skilað höfðu upplýsingum til stofnunarinnar. Þar kom fram að VG hefði engar tekjur fengið frá sveitarfélögum.

Þó er sveitarfélögum með fleiri en 500 íbúa skylt að styðja stjórnmálaflokka, sem fengið hafa meira en 5 prósent atkvæða í sveitarstjórnarkosningum, samkvæmt lögum sem sett voru 2006.

Í reikningum Samfylkingarinnar kemur fram að sá flokkur hafði rúmlega 15 milljónir króna í tekjur frá sveitarfélögum en Framsóknarflokkurinn tæpar 5 milljónir.

„Það urðu mistök hjá VG, þeir blönduðu þessu saman við framlög frá einstaklingum,“ segir Lárus Ögmundsson, skrifstofustjóri hjá Ríkisendurskoðun. Hann segir að Ríkisendurskoðun muni senda frá sér leiðréttingu vegna reiknings VG þegar upplýsingar hafa borist frá flokknum.

Aðspurður sagði Lárus að væntanlega hefði VG átt að færa „einhverjar milljónir“ sem tekjur frá sveitarfélögunum.

Lárus segir að fjárhæð styrkjanna séu alfarið á valdi hverrar sveitarstjórnar. Hins vegar sé sveitarfélögum skylt að dreifa framlögum jafnt á flokkana í hlutfalli við atkvæðamagn þeirra.

VG gaf upp 18,7 milljóna króna tekjur frá einstaklingum, þar með talin félagsgjöld. Samfylkingin gaf upp 17 milljóna króna tekjur frá einstaklingum og Framsóknarflokkurinn 10,6 milljónir.

Árið 2007 gaf VG upp 7,7 milljónir króna í tekjur frá sveitar­félögum en 9,8 milljónir frá einstaklingum.

Drífa Snædal, framkvæmdastjóri VG, staðfesti við Fréttablaðið að flokkurinn hefði fengið styrki frá sveitarfélögum. Sum aðildarfélög hefðu ekki aðgreint þau frá öðrum framlögum. Verið sé að vinna að leiðréttingu. Styrkurinn frá Reykjavíkurborg nam 4-5 milljónum króna, að sögn Drífu, en mun lægri fjárhæðir komu frá öðrum sveitarfélögum. Samkvæmt upplýsingum frá Hafnarfirði fékk VG þaðan um 543.850 krónur en framlagið frá Mosfellsbæ var rúmar 182.000 krónur.

peturg@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×