Íslenski boltinn

Tryggvi: Verð seint valinn vinsælasti keppandinn í deildinni

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Fréttablaðið/Anton
Tryggvi Guðmundson ætlaði að fljúga með Keflavíkurliðinu í land eftir 2-1 sigur ÍBV á fimmtudaginn. Hann hætti þó snarlega við þar sem Keflvíkingar voru brjálaðir út í Tryggva. Ástæðan er sú að hann var viðriðinn atvik sem lauk með því að Guðjón Árni Antoníusson fékk rautt spjald áður en ÍBV tryggði sér sigur. „Ég er skiljanlega ekki sáttur. Það var greinilegt að við áttum innkastið en Tryggvi tók boltann upp. Ég var pollrólegur og ætlaði að taka boltann af honum til að taka innkastið hratt en þá dettur hann. Ef dómarinn átti að spjalda einhvern átti hann að spjalda Tryggva, hann veit það sjálfur að þetta var leikaraskapur,“ sagði Guðjón sem fékk sitt seinna gula spjald fyrir að ýta við Tryggva. „Það er tvísýnt hver átti innkastið,“ segir Tryggvi. „Bæði lið vilja tryggja sér sigur og ég náði því í boltann til að taka innkastið hratt. Við lendum saman og áður en ég veit af er dómarinn kominn með gula spjaldið. Ég var ekki að reyna að fiska spjald eða láta mig detta. Við rákumst bara saman og ég stóð strax upp. Hann gerði mér ekkert,“ sagði Tryggvi. „Ég hélt að dómarinn myndi sjá í gegnum þetta,“ segir Guðjón. „Gunnar Jarl dómari hafði dæmt vel og beðið menn um að standa í lappirnar. Það var dapurlegt að dómarinn skyldi falla fyrir einmitt þessu, ég átti alls ekki skilið gult spjald,“ sagði Guðjón. „Ég er ekki það fljótur að hugsa að ég ætli að ná í bolta til að láta hugsanlega einhvern brjóta á mér sem er kannski með gult spjald og getur fengið rautt. Ég er fljótur að hugsa en ekki svona fljótur,“ segir Tryggvi en þetta er ekki í fyrsta skipti í sumar sem andstæðingar Tryggva eru ósáttir. „Ég verð seint valinn vinsælasti keppandinn í deildinni, það eru tveir búnir að fjúka út af í kringum mig í sumar til dæmis. Ég ætlaði að fljúga með Keflavíkurliðinu heim en hætti við vegna þess hve brjálaðir þeir voru. Ég reyndi líka að tala við Willum þjálfara þeirra til að skýra mína hlið en það var vonlaust.”



Fleiri fréttir

Sjá meira


×