Íslenski boltinn

Gummi Ben: Strákarnir sýndu karakter

Stefán Árni Pálsson skrifar

,, Þessi úrslit verða að teljast frekar sanngjörn ef maður skoðar leikinn í heild sinni,“ sagði Guðmundur Benediktsson, þjálfari Selfyssinga, eftir að þeir höfðu gert,1-1, jafntefli gegn Grindvíkingum   í 11.umferð Pepsi-deildar karla í kvöld.

,, Við spiluðum alveg hreint eins og aumingjar í fyrri hálfleik og áttum í raun ekkert gott skilið úr honum, en svo komu strákarnir til baka í þeim síðari og við komumst aftur inn í leikinn. Mínir menn  sýndu  ákveðin karakter í síðari hálfleiknum og við hefðum alveg getað stolið sigrinum í lokin,“ sagði Guðmundur.

,,Ég var ánægður með síðari hálfleikinn hjá okkur, en þá voru strákarnir að leggja sig fram og lögðu líf sitt undir í návígum,“ sagði Guðmundur.

,,Það sem kom mér á óvart hér í kvöld voru ekki Grindvíkingarnir  heldur voru það mínir menn. Á dauða mínum átti ég von en ekki þessari spilamennsku sem við sýndum í fyrri hálfleiknum,“sagði Guðmundur.

Í næstu umferð Pepsi-deildarinnar fara Selfyssingar í heimsókn í Árbæinn og etja kappi við Fylkismenn.

,, Allir leikir leggjast vel í okkur og það verður enginn breyting þar á gegn Fylkismönnum. Við ætlum svo sannarlega að láta þá hafa fyrir hlutunum,“ sagði Guðmundur Benediktsson , þjálfari Selfyssinga að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×