Enski boltinn

Benitez: Get ekki staðið í því að væla

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Rafa Benitez, fyrrum knattspyrnustjóri Liverpool, er allt annað en ánægður með það hvernig framkvæmdastjórinn Christian Purslow stóð að brottför hans frá félaginu.

"Það var sorglegt hvernig hann stóð að þessu. Ég var í fríi og það kom mér á óvart hvernig hlutirnir gengu fyrir sig og það var allt á ábyrgð Purslow. Það var sorglegt að yfirgefa félagið en ég verð að horfa fram á veginn. Ég sagði við fjölskylduna að við gætum ekki vælt of mikið yfir þessu," sagði Benitez sem er tekinn við Inter af José Mourinho en segist sakna Liverpool.

"Fólkið í Liverpool er baráttufólk og ég barðist frá fyrsta degi til þess síðasta. Mér leið mjög vel í Liverpool. Stuðningsmennirnir voru stórkostlegir en ég get ekki staðið í því að væla. Ég verð að horfa fram á veginn og gera mitt besta fyrir nýja félagið mitt."

Benitez segir að margt hafi breyst eftir að hinir bandarísku eigendur félagsins ákváðu að reyna að selja félagið.

"Þetta var furðulegt. Það breyttist allt strax. Fólkið hjá félaginu breyttist og fór að nálgast hlutina á annan hátt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×