Innlent

Tæplega 5.000 ríkisborgarar fluttu af landinu í fyrra

Alls flutti 4.851 einstaklingur með íslenskan ríkisborgararétt frá landinu á árinu 2009, þ.e. 2.466 fleiri en þeir íslensku ríkisborgarar sem fluttu til landsins með íslenskan ríkisborgararétt.

Þetta kemur fram í svari Gylfa Magnússonar efnahags- og viðskiptaráðherra á Alþingi við fyrirspurn Erlu Óskar Ásgeirsdóttur þingmanns Sjálfstæðisflokksins um brottflutta einstaklinga með íslenskan ríkisborgararétt.

Á árinu 2009 voru flestir brottfluttra íslenskra ríkisborgara á aldrinum 25-29 ára, eða alls 745. Alls fluttu 3.597 íslenskir ríkisborgarar á vinnualdri (16-74 ára) frá landinu eða 1.890 einstaklingar umfram aðfluttra.

Erla spurði einnig um hver væri tekjumissir hins opinbera af brottfluttum einstaklingum 2009.

Í svarinu segir að það sé reynslan hér á landi að búferlaflutningar til og frá landinu eru að töluverðu leyti háðir efnahagsástandinu á hverjum tíma. Íslenskir ríkisborgarar hafa flutt til og frá landinu í takt við spurn eftir vinnuafli og sama má segja um að- og brottflutning erlendra ríkisborgara.

Brottflutningur eykst að jafnaði ári eftir efnahagslægð og nær 1-2 ár fram yfir lægðina. Samkvæmt efnahagsspá Seðlabankans í janúar sl. er gert ráð fyrir neikvæðum hagvexti út þetta ár en að hagur landsins fari batnandi á árinu 2011. Þá er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði kominn upp í tæplega 3% á árinu 2012. Gangi spáin eftir má gera ráð fyrir áframhaldandi búferlaflutningum á þessu ári og eitthvað fram á næsta ár.

Erfitt er að spá fyrir um hvort hið opinbera verði fyrir tekjumissi vegna brottfluttra einstaklinga á árinu 2009. Ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um stöðu þeirra sem hafa flust frá landinu eða hversu margir munu flytja aftur heim þegar betur árar. Það sem skiptir mestu máli í þessu samhengi er hversu hratt og vel tekst að byggja upp atvinnulífið svo koma megi í veg fyrir skaða í framtíðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×