Íslenski boltinn

Blikar safna peningum fyrir knattspyrnudeildina

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guðmundur Pétursson var ekki ókeypis.
Guðmundur Pétursson var ekki ókeypis.

Stuðningsmenn Breiðabliks hafa hrundið af stað fjársöfnun til handa knattspyrnudeildinni. Blikar eru nýbúnir að punga út kaupverði fyrir framherjann Guðmund Pétursson og borguðu Blikar meira fyrir leikmanninn en þeir upprunalega voru til í að borga.

KR tók bæði tilboðum frá Val og FH en Blikar jöfnuðu það tilboð á elleftu stundu. Leikmaðurinn sjálfur vildi fara í Breiðablik.

Á heimasíðu stuðningsmanna Blika, blikar.is, segir að þessir peningar hafi örugglega ekki verið tíndir upp af götunni. Þess vegna eru stuðningsmenn félagsins hvattir til þess að leggja knattspyrnudeildinni lið með upphæð að eigin vali en þó helst sem samsvarar tveimur bíómiðum.

„Við stöndum ekki fyrir þessari söfnun heldur Blikaklúbburinn. Við vissum þó af henni. Þetta er virkilega virðingarvert framtak hjá stuðningsmönnunum. Við fögnum svona framtaki," sagði Einar Kristján Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks.

Hann segir að Blikar hafi samt haft efni á leikmanninum en sögusagnir hafa verið um annað.

„Þó svo það hafi verið til peningar fyrir þessu þá þarf að fjármagna margt annað og ekki mikið um stóra styrktaraðila sem vilja taka þátt núna. Það er árið 2010 og það er erfitt ár eins og allir vita," sagði Einar en hvernig stendur deildin?

„Það er skortur á lausafé og landslagið oft verið betra," sagði Einar en skuldar félagið leikmönnum laun eða bónusa?

„Við erum með keppnisleyfi. Það fá menn ekki nema þeir séu skuldlausir."

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×