Innlent

Fimm nýir héraðsdómarar skipaðir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Héraðsdómurum hefur verið fjölgað um fimm.
Héraðsdómurum hefur verið fjölgað um fimm.
Ragna Árnadóttir dómsmála- og mannréttindaráðherra hefur í dag skipað í embætti fimm héraðsdómara vegna fjölgunar dómara og í eitt embætti vegna lausnar dómara frá embætti.

Ráðherra skipaði Áslaugu Björgvinsdóttur, Ásmund Helgason og Ragnheiði Harðardóttur sem skulu eiga fast sæti dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur, Ragnheiði Thorlacius og Sigurð Gísla Gíslason sem skulu eiga fast sæti við Héraðsdóm Suðurlands og Jón Höskuldsson sem skal eiga fast sæti við Héraðsdóm Reykjaness, öll frá og með 15. maí næstkomandi. Þá hefur ráðherra jafnframt sett Ingiríði Lúðvíksdóttur í embætti héraðsdómara við Héraðsdóm Reykjavíkur, frá og með 15. maí næstkomandi til og með 31. ágúst 2012 í leyfi skipaðs dómara. Dómnefnd um dómstóla, fjallar um hæfni héraðsdómara og mat þessa umsækjendur hæfasta.

Umsóknarfrestur um öll embættin rann út þann 25. febrúar síðastliðinn og sóttu alls 37 um ofangreind sex embætti auk þess sem þrettán umsóknir bárust um setningu við Héraðsdóm Reykjavíkur vegna leyfis skipaðs dómara. Gert er ráð fyrir að dómarar verði 43 fram til 1. janúar 2013 en eftir þann tíma á ekki skipa í embætti héraðsdómara sem losna fyrr en þess gerist þörf, þar til dómarar í héraði verði aftur 38 að tölu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×