Fótbolti

Hólmfríður og félagar misstu frá sér 2. sætið í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hólmfríður Magnúsdóttir.
Hólmfríður Magnúsdóttir. Mynd/Ossi Ahola
Hólmfríður Magnúsdóttir og félagar í Philadelphia Independence töpuðu 1-2 á móti Washington Freedom í bandarísku kvennadeildinni í nótt en með því komst Washington upp fyrir Philadelphia í baráttunni um 2.sætið í deildinni.

Hólmfríður spilaði allan leikinn en hún var nú í framlínu liðsins. Hólmfríður er einn allra fjölhæfasti leikmaður deildarinnar en hún hefur spilað út um allan völl með Independence-liðinu á þessu tímabili.

Hólmfríður var tvisvar nálægt því að skora í fyrri hálfleik en eftir góða byrjun á leiknum fékk Philadelphia-liðið á sig tvö mörk um miðjan fyrri hálfleikinn og eftir það var á brattann að sækja.

Philadelphia Independence hefur nú fengið 11 stig út úr fyrstu sjö leikjum tímabilsins en liðið hefur unnið 3 leiki, gert 2 jafntefli og tapað 2 leikjum. Washington er með 13 stig en FV Gold Pride er í efsta sætinu með 15 stig.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×