Innlent

Vill að Hanna Birna víki

Borgarstjóraskipti í ágúst 2008. Hanna Birna tekur við lyklavöldum á skrifstofu borgarstjóra af Ólafi sem gegnt hafði embætti borgarstjóra frá því í janúar sama ár.
Borgarstjóraskipti í ágúst 2008. Hanna Birna tekur við lyklavöldum á skrifstofu borgarstjóra af Ólafi sem gegnt hafði embætti borgarstjóra frá því í janúar sama ár. Mynd/GVA
Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi, vill að Hanna Birna Kristjánsdóttir víki sem borgarstjóri. Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem Ólafar kallar eftir afsögn Hönnu Birnu. „Borgarstjóri sem er taglhnýtingur spilltasta auðvalds á Íslandi verður að víkja. Það eru almannahagsmunir," segir Ólafur í tilkynningu.

Á næsta borgarstjórnarfundi hyggst Ólafur flytja tillögu um að vegna vanhæfni í starfi og óeðlilegra tengsla við þá sem Ólafur kallar mestu skaðvalda íslensks samfélags verði Hanna Birna látin víkja.

Ólafur rifjar upp að Hanna Birna var aðstoðarframkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins á árunum 1999 til 2006. Á sama tíma hafi pólitískur uppeldisfaðir hennar, Kjartan Gunnarsson, gegnt stöðu framkvæmdastjóra flokksins. Ólafur segir að hún hafi því verið mjög nálægt þeirri atburðarás sem leiddi til þess að Björgólfsfeðgum var „gefinn Landsbanki þjóðarinnar" á sínum tíma.

„Þetta mál verður enn ógeðfelldara þegar litið er til þeirrar staðreyndar, að helstu fjárhagslegu bakhjarlar Hönnu Birnu Kristjánsdóttur eru einmitt þeir Landsbankamenn, Björgólfsfeðgar og Kjartan Gunnarsson," segir Ólafur.

Í byrjun desember á síðasta ári krafðist Ólafur þess að Hanna Birna myndi segja af sér sem borgarstjóri vegna fjárframlaga sem hún þáði af Landsbanka Íslands, áður en hún varði hagsmuni eigenda Landsbankans í málefnum Listaháskóla við Laugaveg. Í samtali við Fréttablaðið sagði Hanna Birna að um dylgjur væri að ræða sem ekki væru svaraverðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×