Enski boltinn

Sven-Göran Eriksson efstur á listanum hjá Fulham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sven-Göran Eriksson.
Sven-Göran Eriksson. Mynd/AFP
Enska úrvalsdeildarliðið Fulham er enn í stjóraleit eftir að ekkert varð úr því að Martin Jol kæmi til liðsins þar sem að Ajax vildi ekki sleppa sínum manni. Jol var óskamaður eigandans Mohamed Al Fayed en nú þurfa Fulham-menn að drífa sig að finna nýja stjórann enda styttist óðum í tímabilið.

Sven-Göran Eriksson er nú efstur á blaði Fulham-manna en menn þar á bæ hafa einnig áhuga á að fá Ottmar Hitzfeld í stjórastólinn á Craven Cottage. Báðir voru þeir með lið á HM í Suður-Afríku, Eriksson með Fílabeinsströndina og Hitzfeld með Sviss.

Sven-Göran Eriksson er með tilboð um að halda áfram með landslið Fílabeinsstrandarinnar en hefur beðið rólegur eftir því hvað gerist hjá Fulham. Sven-Göran ræddi við forráðamenn Fulham fljótlega eftir að Roy Hodgson fór yfir til Liverpool.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×