Íslenski boltinn

Halldór Orri: Bjuggumst ekki við því að Óli myndi skora svona mörg

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Halldór Orri Björnsson.
Halldór Orri Björnsson. Mynd/Anton
„Þetta gerist varla betra," sagði Stjörnumaðurinn Halldór Orri Björnsson eftir 5-0 sigur á Haukum í kvöld. Halldór Orri kom Stjörnunni í 2-0 og bauð í kjölfarið upp á sund- og róðrarfagn en Stjörnumenn áttu engin fögn á lager fyrir þrjú síðustu mörkin sín í leiknum.

„Við vorum ekki alveg nógu undirbúnir því við bjuggumst ekki við því að skora fimm mörk á útivelli. Við gerum ekki þessi mistök aftur og mætum með fleiri fögn tilbúin í næsta leik," sagði Halldór Orri sem var góður í leiknum.

„Það er glæislegt að vera komnir upp í fjórða sætið en við ætluðum að losa okkur algjörlega við þennan fallpakka og reyna að klóra eins hátt upp í töflunni og við getum. Ég veit ekki hvort við eigum möguleika á Evrópusætinu því efstu þrjú liðin eru töluvert langt á undan okkur. Við tökum bara einn leik fyrir í einu og það er gott að vera kominn á sigurbraut," sagði Halldór Orri.

„Þetta var mikil barátta í byrjun en svo náðum við að fá víti og fengum síðan miklu hættulegri færi. Það var virkilega gott að vera 2-0 yfir í hálfleik og svo fannst mér vendipunktur leiksins vera þegar Bjarni náði að verja víti og við skorum síðan þriðja markið skömmu seinna. Eftir það var þetta aldrei spurning" sagði Halldór Orri.

Hann var ánægður með Ólaf Karl Finsen sem skoraði þrennu á síðasta hálftímanum í leiknum.

„Þetta var virkilega flott fyrir Óla og góður leikur fyrir hann. Við bjuggumst ekki alveg við því að Óli myndi skora svona mörg mörk og vorum ekki tilbúnir með fögn fyrir strákinn. Hann verður að eyða meiri tíma með okkur inn í klefa og koma með einhverjar góðar hugmyndir," sagði Halldór Orri í léttum tón.

Stjarnan vann nú sinn annan grasleik á tímabilinu og eru greinilega allir að koma til á útivöllum.

„Það er búið að vera að segja það síðustu tvö ár að við getum ekkert á útivöllum. Það er skiljanlegt því árangurinn á útivelli er ekkibúinn að vera neitt sérstakur. Við erum aðeins að stíga upp á útivöllum núna," sagði Halldór Orri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×