Innlent

Segir kröfugreiðslu einsdæmi í gjaldþrotaskiptasögunni

Sigurður G. Guðjónsson.
Sigurður G. Guðjónsson.

Lögfræðingurinn Sigurður G. Guðjónsson, fékk greidda 200 þúsund króna kröfu í Fons fyrir nokkrum dögum síðan en sjálfur sagði hann í viðtali við Sölva Tryggvason á Skjá einum að það væri einsdæmi í gjaldþrotaskiptasögunni.

Sjálfur keypti Sigurður kröfuna til þess að fá að vera viðstaddur kröfuhafafund félagsins en honum var vísað af brott af öryggisvörðum þegar hann ætlaði að mæta á fundinn. Sjálfur telur hann ástæðuna þá að þrotabúið talið sig hafa gert upp við hann.

Sigurður segir að tveir einstaklingar hafi komið á skrifstofuna til hans og rétt honum umslag sem „hringlaði í" eins og hann orðar það sjálfur. Til útskýringar segir hann að í því hafi verið 200 þúsund krónur og eitthvað klink.

Hann segir það einstakt að þrotabúið hafi brugðist svona fljótt við og það fyrir kröfuhafafundinn. Sjálfur veit Sigurður engin dæmi um slíka skilvirkni.

Raunveruleg ástæða þess að Sigurður vildi vera viðstaddur kröfuhafafundinn var einfaldlega vegna þess að miklir peningar væru í þrotabúi Fons, eða hundruð milljóna. Sjálfur var Sigurður stjórnarformaður félagsins þegar það fór í þrot.

Hann lætur svo að því liggja í viðtalinu við Sölva að skiptastjórar eigi það til að greiða sér óeðlilegar upphæðir. Hann telji að hann hafi fengið greitt til þess að koma í veg fyrir að hann gæti setið fundinn.

Þá sagði Sigurður einnig í viðtalinu við Sölva að milljarðurinn sem Fons lánaði Jóni Ásgeiri Jóhannessyni hefði ekki verið gjafagerningur, eins og fram hefur komið, heldur hafi féð runnið inn í formúluliðið Williams og Hamleys.

Greint hefur verið frá því að skiptastjóri Fons vilji rifta svokölluðum gjafagerning þar sem Fons virðist hafa lagt milljarð inn á einkareikning Jóns Ásgeirs, en engar skýringar hafa fengist á því hvers vegna hann fékk peninginn. Því vill skiptastjóri rifta gerningnum.

Sigurður upplýsti hinsvegar í Spjallinu með Sölva að ekki hafi verið um gjöf að ræða og til stendur að leggja fram gögn til þess að sanna það.

Að lokum gagnrýndi hann Seðlabankann harðlega fyrir þjóðnýtingu Glitnis en hann var stjórnarmaður Glitnis þegar hann fór í þrot. Sigurður segir að lögfræðingurinn Gestur Jónsson, sem var viðstaddur þegar ákvörðun þáverandi Seðlabankastjóra um þjóðnýtingu var kynnt, að hann hafi þurft að skrifa tilkynningu þeirra eftir minni fyrir stjórn Glitnis til samþykktar.

Sigurður segir að Lárus Welding, þáverandi bankastjóri, hafi svo fengið skriflegt bréf frá Seðlabankanum þremur dögum eftir þjóðnýtingu. Það þurfti hann að fá til þess að sýna erlendum kröfuhöfum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×