Enski boltinn

Joe Hart fer ekki frá Manchester City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joe Hart.
Joe Hart. Mynd/AFP
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, hefur útilokað það að markvörðurinn Joe Hart fari frá liðinu en hann var lánaður til Birmingham á síðasta tímabili.

Sunderland hefur áhuga á því að fá Hart að láni og þá er einnig vitað af áhuga frá Arsenal á þessum snjalla markmanni. Hart stóð sig mjög vel með Birmingham á síðustu leiktíð og vann sér sæti í enska landsliðshópnum á HM í Suður-Afríku.

Joe Hart á í harðri baráttu við Shay Given um markmannsstöðuna hjá Manchester City en Hart hefur hingað til þurft að sætta sig að vera markmaður númer tvö hjá félaginu.

„Á þessari stundu þá erum við bara með tvo markmenn. Annar þeirra spilar og hinn verður á bekknum," sagði Roberto Mancini við Daily Telegraph. „Við spilum marga leiki á tímabilinu og stundum þrjá leiki í einni viku þannig að við gætum þurft á báðum markvörðunum okkar að halda," sagði Mancini.

„Ég hef ákveðna hugmynd um hver verður í markinu en ég hef enn eina viku til þess að ákveða mig. Það er mikilvægt að hafa góðan varamarkmann því annars lendum við í slæmum málum ef aðalmarkvörðurinn meiðist," sagði Mancini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×