Innlent

Gefur lítið fyrir múslimafóbíu Þorgerðar Katrínar

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Salmann Tamini, Formaður félags múslima á Íslandi.
Salmann Tamini, Formaður félags múslima á Íslandi. Mynd/GVA
Salmann Tamimi, formaður Félags múslima á Íslandi, undrast fyrirspurn þingmanns sem vill banna búrkur. Hann segir að málið snúist um hræðslu gagnvart trúarbrögðum múslima.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði fram fyrirspurn á Alþingi í gær til Ögmundar Jónassonar, dómsmála- og mannréttindaráðherra, um hvort hann teldi rétt að banna búrkur. Haft er eftir henni á Pressunni í dag að hún sé sjálf þeirrar skoðunar. Þorgerður Katrín segist vilja með fyrirspurn sinni stuðla að „forvirkum umræðum".

Búrkur eru bannaðar bæði í Frakklandi og á Ítalíu. Þá hefur sams konar löggjöf verið til umræðu í Belgíu og hefur þingið nú slíka tillögu til umfjöllunar.

Salmann segir að um mannréttindamál sé að ræða sem komi trú múslima ekkert við. Fólk eigi að fá að klæða sig eins og því sýnist. „Þetta er ekki partur af íslam heldur hluti af hefðum í ríkjum eins og Sádi-Arabíu og Afganistan."

Salmann telur að Þorgerður Katrín og aðrir þingmenn eigi að einbeita sér að mikilvægri og alvarlegri málum. Þá segir hann: „Hvað á að gera við ferðamenn sem koma hingað og nota búrkur? Á að afklæða þá?"

„Íslamfóbía er víða og þetta er ekkert annað en fóbía. Ég skil ekki tilganginn með þessari fyrirspurn," segir Salmann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×