Innlent

Flýja skattbreytingar með stofnun samlagsfélaga

Löng röð var hjá Sýslumanninum í Reykjavík vegna nýskráningar samlagsfélaga um áramótin. Fréttablaðið/stefán
Löng röð var hjá Sýslumanninum í Reykjavík vegna nýskráningar samlagsfélaga um áramótin. Fréttablaðið/stefán

„Biðröðin hjá okkur var löng milli jóla og nýárs,“ segir Bergþóra Sigmundsdóttir, deildarstjóri hjá Sýslumanninum í Reykjavík. 41 nýtt samlags- og sameignarfélag var skráð þar þá tvo virku daga sem opið var á síðustu dögum nýliðins árs. Til samanburðar voru 63 ný félög skráð allt árið í Reykjavík í hittifyrra. Verið er að vinna í því að taka saman heildartölur um skráningu ársins í höfuðborginni.

Sýslumaðurinn í Reykjavík heldur utan um skráningu samlags-, sameigna- og einstaklingsfélaga. Meirihluti nýskráninganna í lok síðasta árs voru samlagsfélög og er sprengingin tilkomin vegna breyttra laga um einkahlutafélög sem samþykkt voru frá Alþingi skömmu fyrir jól og túlkuð samlagsfélagaforminu í hag.

Á meðal skattabreytinganna er það að fari greiðsla arðs yfir tuttugu prósent af eigin fé einkahlutafélags ber helmingur fjárins tekjuskatt líkt og laun. Hins vegar fer skattlagning samlagsfélags fram innan þess og ekki er greiddur út arður líkt og í einkahlutafélagi.

Aukning varð einnig hjá öðrum sýslumannsembættum. Í Hafnarfirði voru tíu ný félög skráð milli jóla og nýárs, eða fjórðungur af firmaskráningum ársins. Nýskráningar félaganna hafa að einhverju leyti skilað sér til Fyrirtækjaskrár, sem hefur gefið út 29 kennitölur á samlagsfélög í síðustu viku. Í fyrra voru þar 537 samlagsfélög á skrá. 97 þeirra fengu kennitölu í fyrra, meirihlutinn féll til í lok árs.

Andri Gunnarsson, lögfræðingur hjá Deloitte, hefur ekki skýringu á reiðum höndum á sprengingu nýrra félaga fyrir áramótin enda geti það undir ákveðnum kringumstæðum talist skattasniðganga að leita eftir skattalegu hagræði með færslu tekna úr einkahlutafélögum yfir í samlagsfélög rétt fyrir áramót. Hann telur samlagsformið lengi hafa verið hagfelldara fyrir einyrkja og lítil fyrirtæki. Einkahlutafélagsvæðingin að einhverju leyti verið tískubóla. „Ég held einfaldlega að skattabreytingin hafi ýtt við fólki. Það hefði átt að gera þetta fyrr og fara í hentugra félagaform,“ segir hann.- jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×