Íslenski boltinn

Leifur: Við áttum að klára leikinn í seinni hálfleik

Elvar Geir Magnússon skrifar
Leifur Garðarsson, þjálfari Víkings.
Leifur Garðarsson, þjálfari Víkings.

Leifur Garðarsson, þjálfari Víkings, var ánægður með frammistöðu sinna manna gegn Val í kvöld. Sú frammistaða dugði þó ekki til sigurs en Valur vann 3-1 eftir framlengingu og kemst þar með áfram í átta liða úrslit VISA-bikarsins.

„Við spiluðum leikinn mjög vel fyrstu tuttugu mínúturnar en svo duttum við aðeins niður og fengum á okkur mark. Seinni hálfleik áttum við algjörlega og þá áttum við að klára þennan leik," sagði Leifur eftir leikinn.

„Við lendum svo aftur undir í framlengingu og hendum öllum upp. Við getum þá í raun jafnað leikinn en það þarf víst að koma boltanum yfir línuna."

Þetta var besta frammistaða Víkings í sumar og ljóst að ef liðið myndi spila svona í öllum leikjum færi það létt með 1. deildina. „Við tókum efsta liðið í Pepsi-deildinni og pökkuðum þeim saman í seinni hálfleik. En þessi fótbolti er svo skondinn, það þarf að gíra sig inn í hvert verkefni. Nú er það Grótta á laugardaginn og menn verða að vera eins innstilltir í það verkefni eins og þeir voru í seinni hálfleikinn í dag," sagði Leifur.

„Þetta er í hausnum á mönnum en þangað kemst þjálfarinn ekki. Það er samt búið að vera að vinna í að leiðrétta ákveðna hluti þar og ég hef fulla trú á að menn komi vel gíraðir inn í næsta leik í 1.deildinni."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×