Innlent

Kínverjar funda um álver á Bakka

Fulltrúar kínverska álfyrirtækisins Bosai eru komnir til landsins til viðræðna við stjórnvöld og Landsvirkjun um álver við Húsavík. Sveitarstjóri Norðurþings segir komið að þeim tímapunkti að ná samningum og hefjast handa.

Það sýnir þá alvöru sem er í málinu af hálfu Kínverja að þeir eru nú í annað sinn á hálfu ári komnir með sendinefnd yfir hálfan hnöttinn til að kanna möguleika á álveri á Íslandi. Þeir funduðu í iðnaðarráðuneytinu í dag með ráðuneytisstjóra og fulltrúum fjárfestingarstofu, verkefnisstjórnar og sveitarfélagsins Norðurþings en ræða einnig við Landsvirkjun og skoða orkuver í Íslandsheimsókninni.

Fulltrúi Þingeyinga, Bergur Elías Ágústsson, sveitarstjóri Norðurþings, segir komið að þáttaskilum í verkefninu. Sameiginlegu umhverfismati sé að ljúka og framundan sé að ganga til samninga og hefjast handa.

Það er hins vegar annað álfyrirtæki, Alcoa, sem lengst hefur undirbúið álver á Bakka við Húsavík og staðið að sameiginlegu umhverfimati, sem tekur einnig til virkjana, en matið er væntanlegt í næstu viku. Verkefnisstjórn um nýtingu orkunnar í Þingeyjarsýslum hefur komist þeirri niðurstöðu, eftir að hafa skoðað atvinnukosti sem bjóðast, að tveir séu áhugaverðir og raunhæfir; álver Alcoa og álver Bosai.

Spurður hvort þetta sé ekki vonlaust, í ljósi þess að pólitísk andstaða er gegn því að álver rísi í Þingeyjarsýslum, svarar Bergur Elías: „Nei, ég held ekki. Það getur varla verið andstaða við að skapa störf." Bæði Þingeyingar og allir landsmenni þurfi á því að halda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×