Fótbolti

Sepp Blatter talar um að útrýma jafnteflum á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sepp Blatter, forseti FIFA.
Sepp Blatter, forseti FIFA. Mynd/AFP
Sepp Blatter, forseti FIFA, segir það í umræðunni innan Alþjóðafótboltasambandsins að hætta með jafntefli á HM í fótbolta en þess í stað verði gripið til vítaspyrnukeppni eftir 90 mínútur eða að menn endurveki gullmarkið í framlengingu.

Blatter ræddi þessa framtíðarsýn sína í viðtali við þýska blaðið Focus en hann segir að markmiðið sé að lífga upp á heimsmeistarakeppnina og koma í veg fyrir þá þróun mála að liðin hugsi umfram allt um að tapa ekki leikjum sínum.

Gullmarkið var í fyrsta og eina skiptið notað á HM 1998 og þá skoraði Frakkinn Laurent Blanc slíkt mark í sigri á Paragvæ í 16 liða úrslitum.

Blatter lagði líka áherslu á það í viðtalinu að FIFA væri að skoða marklínutækni sem er í boði til að skera út um það hvort boltinn fari inn fyrir línuna eða ekki. Hann segir að ef menn finna marklínutækni sem væri örugg, einföld og hagkvæm þá yrði hún notuð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×