Íslenski boltinn

Hannes: Mjög rólegur dagur hjá mér

Kristinn Páll Teitsson skrifar

Hannes Þór Halldórsson, markvörður Fram,  var svekktur að hafa misst af tækifæri að ná toppsætinu í deildinni eftir 0-0 jafntefli Fram og Hauka. Hann er þó fullviss að þeir fengju annan möguleika á að ná því.

„Við ætluðum okkur þrjú stig og erum svekktir að hafa ekki náð þeim, það var eitthvað þungt yfir okkur en ég kann ekki skýringu á því. Ég er hinsvegar sannfærður um að það kemur annað tækifæri að komast á toppinn, ég er sannfærður um það. Hinsvegar ef lið ætlar sér að vera í toppbaráttu verða þau að klára svona leiki. "

Lítið var um marktækifæri í leiknum og þurfti Hannes ekki að gera mikið í leiknum. Það kom hinsvegar ágætis kafli undir lokin og mátti minnstu muna að annaðhvort liðið stæli sigrinum.

„Þetta var mjög rólegur dagur hjá mér, það var hinsvegar ekki dagsplanið að sitja og verjast. Við ætluðum að keyra á þá en um leið og leikurinn er flautaður á er eins og allt annað lið sé mætt í leikinn en labbaði inn á völlinn. Ég hafði hinsvegar alltaf trú á því að við myndum setja mark og finnst ótrúlegt að við skyldum ekki skora á nítíu mínútum, Haukarnir hinsvegar börðust frábærlega og eiga stigið skilið."

Næsti leikur Fram er Reykjavíkurslagur af bestu gerð en þá fá Fram Valsara í heimsókn.

„Við ætluðum að vinna alla heimaleiki en það kom smá bakslag í það, við komum hinsvegar bara betur stemmdir vonandi í næsta leik. Vonandi mæta menn ferskir, tökum góða viku í æfingar og mætum í hörku baráttu á mánudaginn. Það verður toppslagur af bestu gerð og það er gaman að Fram og Valur séu að berjast um toppsætið aftur," sagði Hannes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×