Innlent

Músum fjölgar í Reykjavík

Boði Logason skrifar
Guðmundur Björnsson rekstrarstjóri meindýravarna Reykjavíkurborgar.
Guðmundur Björnsson rekstrarstjóri meindýravarna Reykjavíkurborgar. Mynd/Teitur

„Maður sér það og heyrir það á kvörtunum frá íbúum að þær eru að koma meira inn greyin," segir Guðmundur Björnsson rekstrarstjóri meindýravarna Reykjavíkurborgar.

Á haustin fara mýsnar að láta sjá sig og segir Guðmundur að aukning sé á músagangi í Reykjavík í októbermánuði miðað við undanfarin ár. Hann segir að stofninn sé orðinn stór en aðallega eru það húsamýs sem meindýravarnir hafa þurft að hafa afskipti af.

„Þetta er eitthvað sem kemur alltaf upp á haustin, það er svo sem ekki óvenjulegt. En ætli ég myndi ekki segja að það sé einhver aukning í því," segir Guðmundur sem hefur þó ekki tekið saman neinar tölur sem sýna það svart á hvítu. „Það er alltaf gert um áramótin. En svo þegar að heildartala ársins er tekin saman þá er að sjá hvort að það jafnast út. En í þessum mánuði virðist þetta vera meira en síðustu ár."

Aðspurður hver ástæða þess sé segir Guðmundur að stofninn sé orðinn stór. „Þetta var gott sumar og það virðist stefna í góðan vetur líka, þannig það er líklega skýringin."

Hann segir að aðallega séu það húsamýs sem meindýravarnir Reykjavíkurborgar hafi verið að sinna undanfarið. En hvað geta íbúar gert til að koma í veg fyrir að mýsnar laumist inn í hús þeirra?

„Leiðirnar eru í gegnum opnar hurðir yfirleitt og einnig bílskúrshurðir. Þar komast þær inn og svo oft er hurð frá bílskúrnum inn í íbúðina. Þetta eru því óþéttar hurðir og göt sem þær fara inn um. Það þarf að passa að hafa allar hurðir þéttar," segir Guðmundur að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×