Innlent

Steingrímur boðar frekari skattabreytingar

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, boðaði frekari skattabreytingar á þessu ári í ræðu sem hann hélt á Morgunverðarfundi Deloitte á Grand Hótel í morgun. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að ríkisstjórnin hafi ekki meira svigrúm til skattahækkana.

Skattabreytingar þær sem tóku gildi um áramótin voru til umræðu á hinum árlega skattadegi Deolitte sem haldinn var á Grand Hótel í morgun.

Fram kom í máli Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, að til stendur að fara í grundvallar endurskoðun á skattkerfinu á þessu ári. Sérstök skattanefnd mun hafa það hlutverk að fara yfir skattkerfið en í nefndinni munu sitja fulltrúar atvinnulífsins og hins opinbera.

Markmið þessarar endurskoðunar verður meðal annars að auka jafnræði í skattkerfinu, draga úr áhrifum skattbreytinga og móta stefnu hvað varðar umhverfis- og auðlindarskatta.

Fram kom í máli Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra Samtaka Atvinnulífsins, að ríkisstjórnin hafi ekki meira svigrúm til frekari skattahækkana. Fjárlagahallanum þurfi að mæta með niðurskurði.

„Vegna þess að við stöðugleikasáttmálann sáum við fyrir hvað aðlögunarþörf ríkissjóðs væri mikil og það var ákveðið samkomulag um það hversu stór hluti af þessari aðlögunarþörf ætti að koma með skattahækkunum og hversu stór hluti ætti að koma með lækkun útgjalda. Nú er búið að hækka skattana eins mikið og átti að gera á þremur árum og meira en það ef út í það er farið, en útgjöldin hafa ekki verið lækkuð eins og um var talað og þá er komið að þeim," segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur telur að þær breytingar voru gerðar um síðustu áramót feli í sér afturför sem geti jafnvel komið í veg fyrir að atvinnulífið geti byggt sig upp með eðlilegum hætti. Þá hafi einnig verið gerð ákveðin mistök.

„Til dæmis er verið að takmarka arðsfrádráttinn milli fyrirtækja og það var aðferðin sem var notuð til að skattleggja einkahlutafélög eða úttektir úr þeim. Ákveðin mistök voru gerð þar sem við teljum að þurfi að laga," segir Vilhjálmur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×