Enski boltinn

Wayne Rooney alskeggjaður og spikfeitur í nýrri Nike-auglýsingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney í auglýsingunni.
Wayne Rooney í auglýsingunni. Mynd/Nike Football
Hún er ekki sérlega glæsileg framtíðin hans Wayne Rooney eins og hún kemur fram í nýrri auglýsingu frá Nike. "Write The Future" auglýsingarherferðin snýst um að sýna það á spaugilegan hátt hvernig lítil mistök geta breytt öllu fyrir íþróttamenn.

Í tilfelli Rooney þá er hann orðinn alskeggjaður og spikfeitur íbúi í hjólhýsi eftir að hafa fengið taugaáfall vegna mistaka á HM í Suður Afríku í sumar. Rooney átti þá að hafa klikkað á sendingu á Theo Walcott í leik á móti Frökkum á HM í sumar. Frank Ribery nýtti sér það og skoraði markið sem sló Englendinga út.

Wayne Rooney sést fyrst falla niður á hnén í örvæntingu sinni og síðan er sýnt hvernig tilvera hans hrynur í kjölfarið. Hann missir algjörlega fótanna, hættir í fótbolta og endar alskeggjaður og með bumbu í vesældarlegu hjólhýsi endalaust að svekkja sig á mistökunum á móti Frökkum.

Wayne Rooney sýnir mikla leikarahæfileika í auglýsingunni en í henni koma einnig fram stjörnur eins og Didier Drogba, Fabio Cannavaro, Cristiano Ronaldo, Ronaldinho, Theo Walcott, Cesc Fabregas og Iniesta. Hluta af auglýsingunni má finna hér en hún verður frumsýnd í Englandi um næstu helgi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×