Innlent

Á fimmta hundrað vilja á stjórnlagaþing

Gríðarlegur fjöldi skilaði inn framboði til stjórnlagaþings í morgun og er talið að heildarfjöldi frambjóðenda sé milli 400 og 450. Seint á föstudag höfðu aðeins 160 skilað inn framboðum og því hafa allt að 300 gengið frá framboðsgögnum í dag.

Framboðsfrestur rann út klukkan tólf á hádegi.

Ritari landskjörstjórnar tók við framboðsgögum í morgun og mæddi mikið á honum.

Íslendingar ganga að kjörborði laugardaginn 27. nóvember 2010 og velja fulltrúa til setu á ráðgefandi stjórnlagaþingi sem kemur saman eigi síðar en 15. febrúar 2011 til að endurskoða stjórnarskrá Íslands.

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hefst 10. nóvember hjá sýslumönnum um land allt og erlendis á vegum utanríkisþjónustunnar.






Tengdar fréttir

Táknmálsfréttir um stjórnlagaþing

Fréttir á táknmáli um kosningar til stjórnlagaþings er að finna á kosningavef dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins. Um er að ræða fréttir um undirbúning kosninganna sem fram fara 27. nóvember. Fjallað er um framboðsfrest, helstu dagsetningar, atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og fleira.

Á þriðja hundrað framboð til stjórnlagaþings

Um 160 manns höfðu á föstudag skilað inn framboðsgögnum til landskjörstjórnar vegna framboðs til stjórnlagaþings. Ritari landskjörstjórnar segir fjölda framboða hafa bæst við í morgun og því ljóst að framboðin verða á þriðja hundrað, hið minnsta.

Stjórnlagaþing og þjóðfundur kosta 340 milljónir

Það kostar 340 milljónir að halda stjórnlagaþing og þjóðfund, samkvæmt áætlun sem undirbúningsnefnd stjórnlagaþings hefur unnið. Samkvæmt fjáraukalögum sem dreift var á Alþingi í dag er gert ráð fyrir að 115 milljónir verði greiddar til verkefnisins í ár en 225 milljónir á næsta ári.

Um hundrað vilja á Stjórnlagaþing

Framboðsfrestur til Stjórnlagaþings rennur út á mánudag. Framboðum hefur rignt inn síðustu daga en um hundrað manns hafa nú skráð sig til leiks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×