Fótbolti

Umfjöllun: Grátlegt tap gegn Dönum á Parken

Eiríkur Stefán Ásgeirsson á Parken skrifar
Úr leik liðanna í kvöld..
Úr leik liðanna í kvöld.. AFP

Íslenska landsliðið var einstaklega óheppið þegar það mætti Dönum í Kaupmannahöfn í kvöld. Niðurstaðan var 1-0 sigur heimamanna með marki í uppbótartíma.

Það lá fyrir áður en leikurinn hófst að Danir myndu vera meira með boltann og sækja hratt á íslenska liðið. Íslenska liðið var hins vegar vel undirbúið var og tókst að verjast flestum þeirra sóknaraðgerðum.

Helst var það að hinn hættulegi Dennis Rommedahl náði að skapa hættu við íslenska markið í fyrri hálfleik og voru Danir duglegir að sækja upp hægri kantinn. Öll bestu færi heimamanna í fyrri hálfleik komu hægra megin frá.

En Íslendingar héldu haus og héldu sínu í fyrri hálfleik. Lítið var um sóknaraðgerðir í fyrri hálfleik en það rættist betur úr því í upphafi þess síðari.

Á fyrstu tíu mínútum síðari hálfleiks átti Ísland nokkur ágæt færi sem hefði getað borið meiri árangur með smá heppni. Eftir því sem á leið unnu Danir sig aftur betur inn í leikinn og fóru að ógna íslenska markinu á ný.

Undir lok leiksins var ekki margt sem benti til þess að Dönum tækist að skora. En þegar komið var í uppbótartíma náði Rommedahl að renna boltanum út í teiginn þar sem miðjumaðurinn Thomas Kahlenberg var mættur. Hann hafði lítið látið bera á sér í leiknum en nýtti þetta færi vel. Íslenska vörnin hafði sofið á verðinum og hálf slysalegt skot Kahlenberg rataði í markið eftir að hafa breytt um stefnu.

Í níutíu mínútur hafði íslenska liðið varist mjög vel og náð að kæfa vel flestar sóknaraðgerðir heimamanna. Danir virtust eiga fá ráð við þessum agaða varnarleik og kom ákveðið óðagot á leik þeirra eftir því sem á leið síðari hálfleikinn.

Niðurstaðan því afar svekkjandi og það er erfitt að vera ánægður eftir tvo tapleiki íslenska landsliðsins í röð. En það er þó margt við leik liðsins sem gefur tilefni til að ætla að það séu betri tímar í vændum.

Danmörk - Ísland 1-0

1-0 Thomas Kahlenberg (91.)

Parken. Dómari: Douglas McDonald, Skotlandi 6

Áhorfendur: 18.908

Skot (á mark): 15-7 (7-3)

Varin skot: Lindegaard 3 - Gunnleifur 5

Horn: 3-2

Aukaspyrnur fengnar: 16-7

Rangstöður: 1-0

Leiknum var lýst beint á Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins og má lesa lýsingu leiksins hér: Danmörk - Ísland.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×