Fótbolti

Miroslav Klose vonast til að slá markamet Gerd Müller

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Miroslav Klose fagnar sigurmarki sínu á móti Belgum.
Miroslav Klose fagnar sigurmarki sínu á móti Belgum. Mynd/AP
Miroslav Klose hefur sett markið hátt með þýska landsliðinu því þessi 32 ára framherji ætlar sér að skora í það minnsta fimmtán landsliðsmörk til viðbótar svo honum takist að jafna markamet Gerd Müller.

Gerd Müller skoraði 68 mörk í 62 landsleikjum á árunum 1966 til 1974 en Miroslav Klose hefur skorað 53 mörk í 102 landsleikjum fyrir Þjóðverja. Klose jafnaði í sumar afrek Müller með því að skora sitt fjórtánda mark í úrslitakeppni HM.

Miroslav Klose byrjaði undankeppni EM 2012 með því að tryggja Þjóðverjum 1-0 sigur á Belgum en næsti leikur liðsins er á móti Aserbaídsjan á morgun.

„Ég ætla einbeita mér að því að spila vel á móti Aserbaídsjan. Ég myndi elska það að geta skorað mark í hverjum einasta leik sem ég spila," sagði Miroslav Klose við Goal.com.

„Það er ánægjulegt að vera annar af tveimur markahæstu leikmönnum Þýskalands en mitt aðalmarkmið er samt sem áður að hjálpa landsliðinu að ná góðum úrslitum," sagði Klose.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×