Íslenski boltinn

Ólafur: Liðið spilaði allt mjög vel

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks.
Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks. Mynd/Anton
Ólafur Kristjánsson var mjög ánægður með sína menn í Breiðabliki eftir 2-0 sigur á Val á Vodafone-vellinum í kvöld.

„Þessi leikur fannst mér góður. Við vorum góðir í vörninni og þegar við fundum taktinn vorum við virkilega góðir," sagði Ólafur.

„Þegar það komst meiri hraði í leikinn vorum við mjög fastir fyrir og létum Valsarana hlaupa mikið."

Valsmenn byrjuðu reyndar betur í leiknum en Blikar skoruðu gott mark á 27. mínútu og tóku svo hægt og rólega völdin í leiknum eftir það.

„Bæði mörkin komu eftir gott spila þar sem við komumst inn á svæði sem við vildum komast inn á. Við nýttum okkur það mjög vel."

„Alfreð [Finnbogason] var líka mjög hættulegur í dag og Kristinn nýtti sitt færi vel," sagði Ólafur um markaskorara kvöldsins. „En liðið allt var að spila mjög vel."

Ólafur sagði það einnig ánægjulegt að lukkan virtist vera á bandi Blikanna í leiknum.

„Heppni eða óheppni er ekki eitthvað sem kemur í dós, heldur þarf maður að sækja það. Við höfum ekki verið að sækja það í síðustu tveimur leikjum en menn ætluðu að leggja sig fram í kvöld til að lukka frænka kæmi í heimsókn. Við viljum þó ekki treysta um of á heppnina enda vinnur maður ekki leiki á heppni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×