Fótbolti

Samuel Eto’o og Roger Milla eru ekki miklir vinir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Samuel Eto'o.
Samuel Eto'o. Mynd/AFP
Tvær stærstu knattspyrnustjörnur Kamerún, Roger Milla og Samuel Eto'o, eru ekki miklir vinir ef marka má skot þeirra á hvorn annan á blaðamannafundi í dag. Milla gagnrýndi frammistöðu Eto'o í landsliðstreyjunni sem fór illa í lykilmann Kamerún á komandi heimsmeistarakeppni í Suður-Afríku.

Milla sagði efast um að Samuel Eto'o sé að leggja sig nægilega mikið fram með landsliðinu þar sem hann hafi alls ekki spilað eins vel fyrir landsliðið og hann hefur gert fyrir lið sín Barcelona og Internazionale Milan.

„Að mínu mati hefur Samuel ekki skilað neinu til landsliðsins. Kamerúnar búst við miklu af honum og af liðinu á HM. Kamerúnar vilja sjá leikmanninn sem var áður að spila með Barcelona og nú með Inter," sagði Roger Milla.

„Ég hef rétt á því að gagnrýna það sem miður fer í þessu landi og í mínu landsliði. Ég barðist fyrir því að koma landsliðinu á þann stall sem það er í dag. Ef ég má ekki gagnrýna þá veit ég ekki hver má það þá," sagði Milla.

Samuel Eto'o tók þessu mjög illa og sagði gagnrýnendum sínum að þegja og hætta að rífa niður frammistöðu hans með landsliði Kamerún. Eto'o hikaði ekki að skjóta á sérfræðingana heima fyrir og þar á meðal goðsögnina Roger Milla sem var mættur með honum á þennan blaðamannafund.

„Ég er mesti markaskorarinn í sögu Afríkukeppninnar. Ég hef unnið Afríkukeppnina og Ólympíugull. Skoðið hvað ég er búinn að vinna Meistaradeildina oft. Ég hef tekið við öllu því sem guð hefur gefið mér og ég hef gert miklu meira en sumir," sagði Samuel Eto'o og bætti við:

„Þessir sem gagnrýna mig ættu bara að þegja. Það að spila í átta liða úrslitum á HM er ekki það sama og að verða heimsmeistari," sagði Eto'o og skaut þar óbeint á Roger Milla sem var lykilmaður í liði Kamerún sem komst alla leið í átta liða úrslit á HM á Ítalíu 1990.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×