Innlent

Þorbjörg Helga vill auglýsa stöðuna

Tillaga um að breyta starfi skrifstofustjóra Reykjavíkurborgar og auka völd hans verður tekin til umfjöllunar eftir helgi. Starfið verður ekki auglýst, þrátt fyrir að um eitt valdamesta embætti í borginni sé að ræða. Það er yfirlýst markmið Besta flokksins og Samfylkingarinnar að auglýsa öll störf.

Tillaga meirihluta Besta flokks og Samfylkingarinnar um breytingu á starfi skrifstofustjóra borgarstjóra var afgreidd úr borgarráði á miðvikudag og fer fyrir borgarstjórn á þriðjudag. Málið snýst um að auka völd skrifstofustjóra, Regínu Ásvaldsdóttur þannig að algjör eðlisbreyting verði á störfum hennar tímabundið, eða í eitt ár og henni falið verkstjórnarvald. Starfið verður ekki auglýst, þrátt fyrir yfirlýsingu Besta flokksins og Samfylkingarinnar um að auglýsa öll störf hjá borginni.

Samkvæmt heimildum fréttastofu eru skiptar skoðanir meðal borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um tillöguna. Íhaldssami armur borgarstjórnarflokksins er á móti þessu, en því hefur verið haldið fram að verið sé að búa til nýjan borgarstjóra. Einhverjir eru mildari í afstöðu sinni til tillögunnar.

Þriðja starfið sem meirihlutinn auglýsir ekki

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í stjórnkerfisnefnd borgarinnar, gagnrýnir að staðan sé ekki auglýst þar sem um nýtt starf sé að ræða.

„Okkur finnst það afdráttarlaust að það eigi að auglýsa þetta starf. Þetta er þriðja starfið sem Besti flokkurinn og Samfylkingin auglýsa ekki og eru með tímabundið í ár. Þetta er það stórt starf og óskilgreint í augnablikinu að okkur finnst að það eigi skilyrðislaust að auglýsa það."

Þorbjörg segir ennfremur: „Það kemur ekki á óvart að borgarstjóri sé að breyta þessari stöðu. Hann hefur ítrekað sagt að það sé of mikið hjá honum, hann valdi ekki þessu starfi og vilji breyta þessu. Það sem kemur á óvart að þetta starf er ígildi stöðu borgarstjóra."

Þau svör fengust hjá fulltrúum Besta flokksins í dag að ekki væri um nýtt starf að ræða. Verið væri að breyta starfi skrifstofustjóra tímabundið í eitt ár og því ekki um nýja stöðu að ræða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×