Innlent

Lífeyrissjóðir setji á fót íbúðaleigufélög

Þrátt fyrir sprengingu á leigumarkaði eru litlar upplýsingar til um hann, að sögn formanns Félags löggiltra leigumiðlara. Fréttablaðið/Stefán
Þrátt fyrir sprengingu á leigumarkaði eru litlar upplýsingar til um hann, að sögn formanns Félags löggiltra leigumiðlara. Fréttablaðið/Stefán
„Bankar og Íbúðalánasjóður verða að taka sig saman og búa til félag sem kaupir fasteignir og setur á laggirnar þróað leigufélag. Það gæti verið í eigu lífeyrissjóða, verkalýðsfélaga eða fjárfesta," segir Svanur Guðmundsson, formaður Félags löggiltra leigumiðlara og framkvæmdastjóri leigumiðlunarinnar Húsaleiga.is.

Fréttablaðið sagði í vikunni teikn á lofti um að íbúðafélög að norrænni fyrirmynd, sem keypti fasteignir og leigði þær áfram, væru í mótun.

Svanur tekur undir að þörfin sé mikil á þróuðu íbúðaleigukerfi; fram til þessa hafi það verið bundið félagslegu leiguhúsnæði sveitar­félaga og Búsetakerfi auk leiguíbúða háskólanema. Nú hafi almenni leigumarkaðurinn eflst mikið. Þeir sem hafi misst íbúðarhúsnæði sitt í hendur bankanna síðustu mánuði þurfi á leiguhúsnæði að halda. Þá kjósi margir að leigja fremur en að kaupa fasteignir. Bankarnir hafi ekki komið til móts við þörfina; þeir virðist fremur vilja eiga tómar íbúðir en bjóða þær til leigu.

Svanur segir að samtímis því sem eftirspurn eftir leiguhúsnæði hafi aukist umfram framboð skorti mikilvægar upplýsingar um hana. „Ég barðist fyrir því heillengi að láta taka saman upplýsingar um fjölda leigusamninga," segir Svanur. Af því varð ekki og því liggur ekkert fyrir um stöðu leigumarkaðarins.

Svanur segir að þegar íbúðaverð hafi tekið að rjúka upp fyrir nokkrum árum hafi verið nauðsynlegt að stíga fyrstu skrefin í átt að breyttu íbúðaleigukerfi. Það hafi ekki verið gert. Afleiðingin varð sú að fólk sem kom sér upp þaki yfir höfuðið með fasteignakaupum sökk í skuldafen. Í raun hafi verið hagstæðara að leigja í stað þess að kaupa fasteign.

„Umræðan um leigumarkað hér hefur verið þröngsýn. Það er út af því að mikill hluti þeirra sem hafa verið í leiguhúsnæði hefur verið í félagslega kerfinu. Fólk hefur fram til þessa talið íbúðaleigu jafngilda því að kasta peningum á glæ. En hrunið hefur fengið fólk til að hugsa öðruvísi," segir hann.

jonab@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×