Íslenski boltinn

Rúnar: Klárlega missir af Diogo

Elvar Geir Magnússon skrifar
Diogo hefur reynst KR vel.
Diogo hefur reynst KR vel.

Jordao Diogo, portúgalski sóknarbakvörðurinn hjá KR, hefur verið lánaður til gríska úrvalsdeildarliðsins Panserraikos sem komst upp úr B-deildinni síðasta tímabil. Diogo lék sinn síðasta leik fyrir KR, í bili a.m.k., þegar liðið vann Val örugglega 4-1 í kvöld.

„Hann fer í láni til 1. maí á næsta ári. Við vissum að Diogo hefur mikinn áhuga á að komast til útlanda og þegar hann hafði möguleika á að fara út í fyrra neituðum við honum um það. Við gátum ekki gert það núna fannst okkur þrátt fyrir að við séum komnir í þessa baráttu," sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, eftir leikinn í kvöld.

„Við stöndum við þau loforð sem við gefum okkar leikmönnum. Við erum með Guðmund Reyni Gunnarsson þarna og höfum svo Dofra Snorrason og Skúla Jón. En það verður þó klárlega missir af Diogo, hann er gríðarlega hraður og skemmtilegur leikmaður."

Telur Rúnar að Diogo hafi leikið sinn síðasta leik fyrir KR? „Það er alls óvíst og ég get ekkert sagt um það. En vonandi gengur honum vel í Grikklandi, það er hans hagur og okkar hagur."

Rúnar var annars verulega ánægður með sitt lið í kvöld. „Við erum í erfiðu prógrammi og höfum stuttan tíma til að gíra okkur upp í leikn gegn Fylki á fimmtudaginn. Þetta er ærið verkefni fyrir alla en ég vona að menn séu það hungraðir í að ná árangri að þeir gefi allt sem þeir geta til að ná í þrjú stig þar," sagði Rúnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×