Fótbolti

Ólafur: Fúlt að tapa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Kaupmannahöfn skrifar

Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari sagði að það hefði vitaskuld verið ansi súrt í broti að tapa fyrir Dönum á Parken í kvöld.

Danir unnu 1-0 sigur og skoruðu sigurmarkið í uppbótartíma. Þá hafði íslenska liðið haldið aftur af Dönum í 90 mínútur með góðum árangri.

„Ég held að frammistaða leikmanna hafi verið mjög góð og að allir hafi gengið sáttir af velli með sína frammistöðu. Auðvitað var það fúlt að tapa en við vorum í fínu lagi í 90 mínútur. Það vantaði smá brodda í okkur - að þora að vera á boltanum en það kemur með reynslunni.“

Hann segir litlum knattspyrnuþjóðum oft refsað fyrir sín mistök og þannig var það í gær. „Það má aldrei missstíga sig og þá er þeim refsað. Þannig hefur það verið í fyrstu tveimur leikjum okkar í þessum riðli - okkur hefur verið refsað illa.“

Danir sóttu stíft upp hægri kantinn í fyrri hálfleik en íslenska liðið náði að stöðva þær sóknaraðgerðir í þeim síðari.

„Við breyttum aðeins til og snerum okkur aðeins öðruvísi í varnarleiknum. Við reyndum að fá Danina til að sækja á hinn kantinn frekar og það gekk ágætlega. Við vissum svo að ef okkur tækist að halda þeim í núllinu færu þeir að taka ákveðna sénsa. Þá fannst mér við fá fleiri tækifæri til að sækja en það vantaði herslumuninn að okkur tækist að gera það almennilega.“

„Svo kom markið og það er erfitt að segja hvort eigi að skrifa það á einbeitingarleysi eða óheppni. Ætli það hafi ekki verið beggja blands.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×