Enski boltinn

Krasic spenntur fyrir ensku úrvalsdeildinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Krasic, í rauðu, í leik með CSKA Moskvu.
Krasic, í rauðu, í leik með CSKA Moskvu. Nordic Photos / AFP

Umboðsmaður Milos Krasic segir að það væri heimskulegt af honum að hafna boði um að spila í ensku úrvalsdeildinni.

Krasic er serbneskur miðvallarleikmaður en hefur verið á mála hjá CSKA Moskvu undanfarin sex ár þar sem hann hefur slegið í gegn. Hann átti ríkan þátt í því að liðið komst í fjórðungsúrslit Meistaradeildar Evrópu í ár.

Krasic er líklega á leið á HM með landsliði Serbíu og sagði umboðsmaður hans að mögulegt væri að félagið vildi bíða þar til eftir keppnina að fá niðurstöðu í hans mál.

„Milos vill fá sín mál á hreint fyrir HM," sagði umboðsmaðurinn sem sagði reyndar að Krasic vildi helst komast til Bayern München þar sem Ivica Olic, besti vinur Krasic, leikur þar.

„En þýsk lið hafa varla efni á að kaupa hann. Ég legg áherslu á að Manchester United hefur ekki sett sig í samband við okkur en Milos telur að enska úrvalsdeildin sé sú besta í heimi," sagði umboðsmaðurinn.

„Hann væri mjög ánægður með að fá að spila þar. Það væri reyndar frekar heimskulegt að hafa boði um að spila í Englandi, í hreinskilni sagt."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×