Innlent

Grunnskólanemendur í Hrísey vilja banna tóbakið

Fimm grunnskólakrakkar úr Hrísey hafa ritað alþingismönnum bréf þar sem þeir eru hvattir til þess að banna innflutning á tóbaki. Krakkarnir taka þátt í verkefni á vegum Lýðheilsustöðvar, Reyklaus bekkur, og þeim datt í hug að leggja þetta til. Þau vísa í bann við innflutningi á M&M sælgæti á níunda áratug síðustu aldar og spyrja hvers vegna ekki sé hægt að fara sömu leið með tóbakið.

Þau segjast gera sér fyllilega grein fyrir þeim búsifjum sem ríkið yrði fyrir þegar tóbaksgjaldið hætti að berast í ríkiskassann en stinga þess í stað upp á ýmsum hugmyndum til þess að vega upp á móti því. Auk þess benda þau á að sjúkrakostnaður minnki vegna sjúkdóma sem tengja má við reykingar.

Þess utan benda þau á að Ísland yrði miklu snyrtilegra því þá myndu sígarettustubbar ekki vera út um allt. Að þessu sögðu leggja þau til að tóbaksbann verði lagt á á Íslandi árið 2015.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×