Erlent

Tony Blair var að gefast upp árið 2004

Óli Tynes skrifar
Tony Blair fyrrverandi forsætisráðherra.
Tony Blair fyrrverandi forsætisráðherra.

Tony Blair var svo niðurbrotinn vegna gangsins í Íraksstríðinu árið 2004 að hann var að því kominn að segja af sér.

Í bók sinni The End Of The Party segir stjórnmálafréttaritarinn Andrew Rawnsley að stríðið hafi haft mikil áhrif á forsætisráðherrann bæði andlega og líkamlega.

Kaflar úr bókinni eru nú birtir sem framhaldsgreinar í blaðinu The Observer. Rawnsley vitnar í Sally Morgan nána aðstoðarkonu Blair sem sagði að Íraksstríðið hafi verið eins og kviksyndi sem var að gleypa hann.

-Hryðjuverkin, þessar hræðilegu myndir frá Abu Ghraib fangelsinu, segir Morgan.

Blair er sagður hafa sagt Gordon Brown og John Prescott frá því að hann ætlaði að segja af sér.

Brown var þá fjármálaráðherra og Prescott var vara forsætisráðherra. Rawnsley segir að svo virðist sem Cherie eiginkona Blairs og nokkrir nánir vinir hafi fengið hann ofan af því að segja af sér.

Það hafi orðið til þess að Brown gersamlega trylltist. Rawnsley vitnar í einn af aðstoðarmönnum Blairs sem segir að Brown hafi alveg misst stjórn á sér. Hann hafi staðið inn á skrifstofu Blairs og öskrað, -Hvenær í andskotanum ætlarðu að fara?

Tonny Blair sagði loks af sér árið 2007 og Brown tók þá við embættinu eins og samið hafði verið um.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×