Fótbolti

Suður-Afríka vann Danmörku - Hollendingar sjóðheitir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mphela, til vinstri, fagnar marki sínu í dag en Stephan Andersen, markvörður Dana, situr í grasinu.
Mphela, til vinstri, fagnar marki sínu í dag en Stephan Andersen, markvörður Dana, situr í grasinu. Nordic Photos / AFP

Suður-Afríkumenn geta leyft sér að brosa í dag eftir að landslið þeirra vann góðan 1-0 sigur á Dönum í æfingaleik fyrir HM sem hefst í Suður-Afríku á föstudaginn.

Heimamenn eru ekki hátt skrifaðir í knattspyrnuheiminum um þessar mundir en Suður-Afríka situr í 83. sæti styrkleikalista FIFA, aðeins sjö sætum fyrir ofan íslenska landsliðið.

Það var Katlego Abel Mphela sem skoraði eina mark leiksins á 76. mínútu en þetta var hans fjórtánda landsliðsmark í 30 leikjum. Hann spilar með Mamelodi Sundowns í heimalandinu.

Þá minntu Hollendingar rækilega á sig með 6-1 sigri á Ungverjum í Amsterdam í dag fyrir framan 50 þúsund áhorfendur. Þeir lentu reyndar undir strax á sjöttu mínútu leiksins er Balazs Dzudzsak kom Ungverjum yfir en Robin van Persie jafnaði stundarfjórðungi síðar.

Holland skoraði svo fimm mörk í síðari hálfleik. Arjen Robben var með tvö og þeir Wesley Sneijder, Mark van Bommel og Eljero Elia með eitt hver.

Þá vann Bandaríkin 3-1 sigur á Ástralíu. Edson Buddle skoraði tvö mörk fyrir Bandaríkin og Herculez Gomez eitt. Tim Cahill skoraði mark Ástrala.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×