Fótbolti

Dagar Carlos Queiroz nánast taldir sem þjálfari Portúgala

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Queiroz.
Carlos Queiroz. Mynd/AFP
Portúgalskir miðlar hafa skrifað um það í dag að Carlos Queiroz verði rekinn sem þjálfari portúgalska landsliðsins eftir mjög slaka byrjun á undankeppni EM 2012 og aðeins eitt stig út úr fyrstu tveimur leikjunum.

Portúgalir töpuðu 0-1 á móti Norðmönnum í Osló í gær en höfðu gert 4-4 jafntefli við Kýpur á heimavelli í fyrsta leiknum fjórum dögum fyrr. Carlos Queiroz gat ekki stjórnað liðinu í leikjunum því hann er í sex mánaða banni fyrir að hafa truflað lyfjapróf á æfingu landsliðsins í aðdraganda HM í sumar.

A Bola, stærsta fótboltablað Portúgals, skrifar um það í dag að Gilberto Madail, forseti knattspyrnusambandsins, ætli að reka Queiroz og að líklegastur til að taka við liðinu sé Paulo Bento, fyrrum þjálfari Sporting Lissabon frá 2005 til 2009.

Það bendir því allt ril þess að Portúgalir verði með nýjan þjálfara þegar þeir mæta á Laugardalsvöllinn 12. október næstkomandi en fjórum dögum áður fá þeir Dani í heimsókn á Estádio José Alvalade í Lissabon.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×