Fótbolti

Van der Vaart var óánægður með að vera tekinn alltaf útaf

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rafael van der Vaart í leiknum á móti Finnlandi í gær.
Rafael van der Vaart í leiknum á móti Finnlandi í gær. Mynd/AP

Rafael van der Vaart er orðinn mjög pirraður yfir hlutverki sínu með hollenska landsliðinu en hann var ekki í byrjunarliðinu á móti San Marínó og var síðan tekinn útaf eftir klukkutíma á móti Finnum í gær.

Rafael van der Vaart er nýgenginn til liðs við Tottenham í ensku úrvalsdeildinni en í hollenska landsliðinu stendur hann í harðri samkeppni við Wesley Sneijder sem spilar með Internazionale á Ítalíu.

„Þegar þú er að spila vel þá finnst manni skiljanlega ekki rétt að maður sé tekinn af velli. Ég er að verða svolítið þreyttur á þessu. Skiptingarnar hans eru mjög fyrirsjáanlegar. Þetta var minn 84. landsleikur og ég tel að ég eigi stundum skilið að fá að klára leikinn," sagði Rafael van der Vaart eftir leikinn.

„Ef ég er að spila illa þá er í fínu lagi að taka mig útaf eftir klukktíma því þá er það bara mér sjálfum að kenna. Í þessu tilfelli lagði ég mig fram á æfingum, hélt kjafti og gerði mitt besta en var samt sem áður tekinn af velli," sagði van der Vaart.

„Ég gaf allt mitt í leikinn og var að spila út úr minni bestu stöðu því ég er ekki vinstri vængmaður. Ég stóð mig samt vel, átti þátt í tveimur mörkum, átti nokkur góð hlaup og var nærri því búinn að skora. Ég reyni alltaf að vera jákvæður en ég get ekki munað eftir því hvenær ég spilaði síðast 90 mínútur," sagði van der Vaart.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×