Fótbolti

Morten Olsen: Erfitt að spila gegn svona liði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Kaupmannahöfn skrifar
Morten Olsen, þjálfari Dana.
Morten Olsen, þjálfari Dana. Mynd/AFP
Landsliðsþjálfari Dana, Morten Olsen, var dauðfeginn að hafa unnið 1-0 sigur á Íslendingum á Parken í gær.

„Leikmennirnir sýndu mjög gott viðhorf með því að ná að skora því það hefði verið afar svekkjandi að vinna ekki þennan leik," sagði hann við danska fjölmiðla eftir leikinn.

„Hefðum við nýtt eitt af þeim þremur dauðafærum sem við fengum í fyrri hálfleik er ég viss um að við hefðum unnið 3-0 eða 4-0 sigur."

„En það er erfitt fyrir öll lið að spila gegn liði sem spilaði eins og Ísland í gær. Það var erfitt að finna svæðin en okkur tókst allavega að skapa færi gegn þéttu liði. Ef maður telur færin var þetta sanngjörn niðurstaða."

Og Olsen var ánægður með hægri vænginn í leiknum en nánast allar sóknaraðgerðir Dana í fyrri hálfleik komu í gegnum hann.

„Dennis Rommedahl og Lars Jacobsen spiluðu frábærlega. Þeir voru duglegir að sækja fram og skapa usla."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×