Innlent

Þarf tvöfalt meiri niðurskurð ríkisútgjalda á næsta ári

Frá undirritun stöðugleikasáttmálans. Mynd/ Stefán Karlsson
Frá undirritun stöðugleikasáttmálans. Mynd/ Stefán Karlsson

Ríkisstjórnin þarf að skera fimmtíu milljarða króna af ríkisútgjöldum til viðbótar til að halda ákvæði stöðugleikasáttmálans. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins kveðst engin teikn sjá um að ráðherrar séu með uppbrettar ermar að undirbúa slíkan niðurskurð.

Í stöðugleikasáttmála ríkisstjórnarinnar við samtök launþega, samtök atvinnulífsins og samtök sveitarfélaga er markaður rammi um það hvernig fjárlagahalli ríkissjóðs verði brúaður. Þar er kveðið á um það að á árunum 2009 til 2011 verði hlutfall skattahækkana í lausn fjárlagavandans ekki hærra en 45 prósent, sem þýðir að 55 prósent af hallanum þarf að mæta með niðurskurði.

Staðan núna er sú að á þessu og síðasta ári er búið að hækka skatta um 72 milljarða króna en lækka útgjöld um 38 milljarða króna. Til að halda umsömdum hlutföllum stöðugleikasáttmálans reiknast Samtökum atvinnulífsins til að niðurskurðurinn þyrfti að vera 88 milljarðar króna, - það vanti enn 50 milljarða upp á.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að búið sé að nýta allt svigrúm sem gefið var fyrir skattahækkanir í stöðugleikasáttmálanum, og meira en það, vegna þriggja ára; 2009, 2010 og 2011. Útgjöldin hafi ekki lækkað að sama skapi og það eigi eftir að lækka útgjöld um 50 milljarða áður en menn geti farið að tala um meiri skattahækkanir.

Ráðherrar virðast eiga fullt í fangi þessa dagana með að ná fram 28 milljarða niðurskurði þessa árs. Spurður hvort þeir ráði við tvöfalt stærri niðurskurð á næsta ári ár svarar Vilhjálmur að ríkisstjórnin þyrfti nú þegar að vera komin á fleygiferð að undirbúa þá útgjaldalækkun.

"Við tökum ekki eftir því að ráðherrar eða aðrir séu með uppbrettar ermar að reyna að lækka útgjöldin 2011. Það er miklu meira að menn séu að spá í hvernig þeir eigi að standa við fjárlögin 2010," segir Vilhjálmur.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.