Íslenski boltinn

Umfjöllun: Eyjamenn fóru glaðari frá borði í toppslagnum

Elvar Geir Magnússon skrifar
Úr leik liðanna í kvöld. Mynd/Stefán
Úr leik liðanna í kvöld. Mynd/Stefán

Breiðablik og ÍBV skildu jöfn, 1-1, í toppslag Pepsi-deildar karla í Kópavogi í kvöld. Leikurinn var dramatískur og Blikar ansi nálægt því að ná sér í öll stigin í lokin.

Tryggvi Guðmundsson kom ÍBV yfir með marki úr vítaspyrnu í fyrri hálfleik en hendi var dæmd á Alfreð Finnbogason. Skömmu eftir markið lögðust Eyjamenn í skotgrafirnar.

Hernaðaráætlun Heimis Hallgrímssonar gekk prýðilega því Blikarnir náðu ekki að sýna sína frægu sóknartilburði. Þeim gekk bölvanlega að finna leiðina framhjá varnarmúr Eyjamanna.

Í raun fengu Blikar sárafá teljandi færi í leiknum, mark þeirra kom eftir misskilning í vörn Eyjamanna. Alfreð Finnbogason slapp einn í gegn og kláraði vel.

Eftir markið héldu Eyjamenn áfram með öflugan varnarleik að leiðarljósi. Þeir voru greinilega sáttir við stigið sem þeir voru með í höndunum enda ljóst að með jafntefli héldu þeir toppsætinu.

Sú varð svo niðurstaðan í lokin þó það hafi farið um marga áhorfendur í uppbótartímanum þegar fyrsta snertingin sveik Alfreð Finnbogason sem náði þó skoti á markið. Fyrirliðinn Andri Ólafsson var þá mættur til bjargar fyrir gestina og bjargaði hann á línu.

Toppliðin skiptu því stigunum á milli sín. Blikar voru miklu mun meira með boltann og eru vafalítið svekktir með að hafa ekki náð að ógna meira. Eyjamenn voru öllu kátari í leikslok.

Það ber að hrósa varnarleik Eyjamanna í leiknum enda ekki að ástæðulausu sem þeir hafa fengið á sig fæst mörk allra í deildinni. Fyrir aftan vörnina var Albert markvörður traustur og fyrir framan hana vann Þórarinn Ingi mikilvæga vinnu.

3.180 áhorfendur mættu á leikinn og er það met á Kópavogsvelli.

 

Breiðablik -ÍBV 1-1

0-1 Tryggvi Guðmundsson (víti 21.)

1-1 Alfreð Finnbogason (65.)

Áhorfendur: 3.180

Dómari: Magnús Þórisson 6

Skot (á mark): 12-6 (4-2)

Varin skot: Ingvar 1 - Albert 2

Horn: 8-4

Aukaspyrnur fengnar: 6-10

Rangstöður: 3-5



Breiðablik 4-3-3:

Ingvar Þór Kale 6

Arnór Sveinn Aðalsteinsson 6

Elfar Freyr Helgason 8

Kári Ársælsson 7

Kristinn Jónsson 6

Jökull Elísabetarsson 6

Finnur Orri Margeirsson 7

(84. Olgeir Sigurgeirsson -)

Guðmundur Kristjánsson 6

Haukur Baldvinsson 7

Kristinn Steindórsson 6

(46. Guðmundur Pétursson 5)

Alfreð Finnbogason 7

ÍBV 4-3-3:

Albert Sævarsson 8

James Hurst 5

Eiður Aron Sigurbjörnsson 8

Rasmus Christiansen 7

Matt Garner 6

Finnur Ólafsson 7

(90. Ásgeir Aron Ásgeirsson -)

Andri Ólafsson 6

Þórarinn Ingi Valdimarsson 8* - Maður leiksins

Tryggvi Guðmundsson 6

Tony Mawejje 5

Eyþór Helgi Birgisson 4

(57. Danien Warlem 6)

Leiknum var lýst beint á Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins. Til þess að sjá lýsinguna þarf að smella hér: Breiðablik - ÍBV



Fleiri fréttir

Sjá meira


×